Valdabarátta

Við mamma vorum að koma inn úr göngu, fórum í Elliðaárdalinn. Það er svo hrikalega langt síðan að við gengum hringinn okkar, að ég var bókstaflega að missa mig í merkingum. Ég kreisti nokkra dropa úr blöðrunni svo oft á leiðinni, að gangan tók helmingi lengri tíma en vanalega að sögn mömmu. Ekki tók ég eftir því, ég hafði svo mikið að gera í merkingum. Svo tætti ég upp rennblautt grasið eftir hverja merkingu og þeytti því yfir mömmu og/eða út á gangstétt. Gönguleiðin er því kyrfilega merkt núna fyrir þá sem ekki rata Wink

 

Samstundis og við komum heim, og mamma hafði klætt sig úr pollagallanum, kvartaði hún yfir því að það væri vond lykt af hundvotum feldi. Því ákvað hún að draga mig í sturtu. Og hún þurfti bókstaflega að draga mig niður stigann. Ég spyrnti við á öllum fjórum, en mamma gaf sig ekki. Hún lét eins og bandbrjáluð keppniskona í reiptogi, togaði af öllum lífs og sálar kröftum og hafði sitt fram á endanum. Hún náði að draga mig inn í sturtuna Angry

En sigurvíman rann fljótt af henni. Hún gleymdi nefnilega að að festa tauminn við blöndunartækin, leit af mér til þess að stilla hitann á vatninu, þá greip ég tækifærið og strauk. Ég hljóp með látum upp í herbergið mitt, hentist upp í gluggakistu og lagðist þar flatur. Þóttist svo vera mjög upptekinn við að horfa út um gluggann þegar mamma kom upp og röflaði yfir strokinu. Ég lét pirringinn ekkert á mig fá, ég var svo ánægður með sjálfan mig. Engin sturta. Ég hafði unnið Wizard


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband