Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Litla hjálparhellan

Enn og aftur er búið að reka mig úr hjálparsveit húsmæðra í endurbótum. Ég mátti víst ekki príla upp málningartröppuna á eftir mömmu. Hún er mjög lofthrædd og hún hafði bara málningarbakkann og pensilinn til þess að halda sér í. Hvorugur gerði nokkuð gagn þegar ég skellti mér upp tröppuna til aðstoðar Crying

Trappan riðaði, mamma veinaði en lenti þó standandi. Bakkinn og pensillinn flugu hvor í sína áttina. Gólfið er allt útatað í málningu en óþarfi að röfla yfir því. Ævar frændi minn ætlar hvort eð er að parketleggjaWhistling

En mamma er hrikalega pirruð yfir málningarklessunum á nýju rúllugardínunum. Ætli við eyðum ekki morgundeginum í Ikea. Ég mun bíða rosa stilltur í bílnum á meðan mamma hleypur um í búðarferlíkinu í rúllugardínuleit Halo


Dekurdýr

Við mamma fórum í ísbúðina áðan, ég fékk ís í brauðformi og mamma líka Tounge Mamma heldur á mínum ís og ég á að borða hann rólega. Sleikja fyrst ísinn og fá svo bita og bita af brauðformi. Helst vildi ég fá að gleypa ísinn minn í einum munnbita og borða svo mömmu ís. En mamma ræður, svo að ég verð bara að sætta mig við hversu laaaaaangan tíma ísátið tekur Joyful

Þegar við vorum búin í ísbúðinni fórum við og sóttum bein sem Rut frænka mín var svo góð að gefa mér. Ég gat því hent mér á pulluna eftir ísátið og hámað í mig beinið. Það tók mig ekki langan tíma að bryðja beinið, mamma skiptir sér nefnilega aldrei af beinátinu. Ég get hakkað það í mig á þeim hraða sem mér hentar Wink

 


Froða

Mömmu finnst gott að liggja og slaka á í freyðibaði. Mér finnst það sóun á froðu að liggja kyrr, gera ekkert nema hlusta á Mamma Mia við kertaljós. Froðan í baðinu er nefnilega svo rooooooooosalega bragðgóð Joyful

Fyrst reyni ég að sleikja froðuna ofan af baðvatninu á meðan rennur í baðkerið, en mamma rekur mig alltaf út af baðherberginu. Þegar mamma er komin ofan í vatnið er hún nánast hulin froðu, það rétt grillir í andlit og hár. Ég legg á mig mikla vinnu, ét froðu í gríð og erg, einhver verður að finna afganginn af mömmu. En hún verður alltaf jafn pirruð á þessari leit minni. Ég hef því verið að finna leið til þess að fá að éta froðuna, án þess að mamma reki mig út. Og nú hef ég fundið hana Whistling

Ég á nokkra litla bolta sem gaman er að leika með inni. Ég hef uppgötvað að ef ég næ í lítinn bolta, hendi honum ofan í baðkerið til mömmu, fleygir hún honum til mín aftur, röflandi um að hún kæri sig ekkert um útslefuð hundaleikföng í freyðibaðið Wink

En ég er sáttur, þrátt fyrir mótbárur mömmu. Ég fæ boltann nefnilega til baka, þakinn froðu. Þegar ég er svo búinn að sleikja froðuna af boltanum, hendi ég honum aftur ofan í baðið til mömmu. Fæ hann aftur til mín, þakinn froðu. Svo held ég bara áfram að vesenast svona þangað til að mamma gefst upp á afslöppuninni, hunskast upp úr baðinu og fer að sinna mér Wizard


Minn staður

Oft þegar mamma þarf að versla um helgar, dríf ég mig með henni. Hún veit alveg að minn staður í bílnum er skottið, það sem hún kaupir þarf að rúmast í aftursætinu. Hún gleymdi því alveg um síðustu helgi, keypti húsgögn, fullviss um að mublurnar kæmust vel fyrir í station-bílnum okkar. En auðvitað var ekkert pláss í skottinu fyrir húsgögn og heilan hund, það fer nú ekki svo lítið fyrir mér. Ég varð því að færa mig í framsætið, húsgögnin fengu mitt pláss Crying

Þegar ég var kominn í frammí, reyndi mamma fyrst að troða mér í bílbelti. Eftir endalaust vesen og vangaveltur komst hún að því að bílbeltin eru ekki gerð fyrir hunda. Því varð hún að keyra heim með mig óbundinn og skipaði mér að liggja á gólfinu. Ég hlýddi í nokkrar sekúndur en ákvað svo að láta fara vel um mig í framsætinu við hlið mömmu, enda sá ég ekkert markvert liggjandi á gólfinuAngry

Þegar ég var komin í sætið við hlið mömmu, sá ég margt nýtt og markvert sem ég þurfti að skoða. Gírstöngin var áhugaverð, ég þurfti að skipta mér af því í hvert sinn sem mamma skipti um gír. Ég tróð trýninu líka að stýrinu og hjálpaði mömmu að snúa því. Dinglandi lykill í kveikjulás var mjög spennandi, ég hamaðist lengi við að ná honum. Ég reyndi líka að fá mömmu til þess að klappa mér og klóra mér á bak við eyrun í bíltúrnum. Hún var ekkert sérstaklega ánægð með það:  "Lappi minn hættu þessu veseni, sérðu ekki að ég er upptekin við að keyra!!" Gasp 

Mömmu fannst ég ekki góður aðstoðarbílstjóri. Hún hefur því ákveðið að kaupa ekki fleiri húsgögn í bili. Eða þá að vera skynsöm og panta sendiferðabíl, þegar við tvö förum saman í húsgagnaverslanirGrin 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband