11.7.2008 | 18:42
Flækingskettir
Í könnunarleiðöngrum mínum um hverfið, flækjast kettir oft fyrir mér. Það er alveg sama hvað mamma segir: "Sjáðu, þetta er bara lítil sæt kisa" " Hættu þessum látum og láttu kisu í friði" Ég vil ekki vita af köttum nálægt mér og verð hrikalega pirraður þegar við hittum þá. Í heimi hunda eru kettir til þess að elta, já eða alla vega hræða
Venjulega dugir að stoppa, horfa illilega á kisuna, láta heyra pínu í mér og bingó! Hún lætur sig hverfa. Eftir stend ég hrikalega ánægður með mig og horfi hróðugur á mömmu " Ertu ekki ánægð með mig, kisan er farin"
En það eru til undantekningar. Um daginn varð á vegi mínum kisa sem lét ekki segjast. Tilburðir mínir til þess að stökkva henni á flótta voru til einskis. Ég stoppaði. Hún gaf sig ekki. Þá horfði ég illilega á hana, en það dugði ekki til. Þá ákvað ég að sýna tennurnar og urra smá, það gekk ekki heldur. "Litla sæta kisan" sat bara sem fastast á miðjum gangvegi mínum og mömmu, setti upp kryppu og gerði sig líklega til þess að hvæsa.
URRRRRRRRR!! Þvílík hortugheit Slíkt framferði er ekki hundum bjóðandi. Ég setti því upp minn ljótasta svip og urraði svo hressilega að mömmu dauðbrá. Stökk svo að kettinum, með mömmu í eftirdragi
Kisan lét sig auðvitað hverfa, með látum. Mamma var hins vegar var ekkert ánægð með að vera dregin í þennan slag og hóf enn eina ræðuna um "litlar sætar kisur". Hún ætti ekki að kvarta. Konan sem segist kjósa að líta á björtu hliðarnar. Getur hún þá ekki bara verið ánægð með að ég togi hana stundum pínulítið áfram. Hún er þá a.m.k. með einn fitt vöðva á líkamanum. Togvöðvann á hægri upphandlegg, sem ég sé um að þjálfa
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:46 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.