9.9.2008 | 23:23
Hluthafa-afmæli
Hluthafinn átti afmæli í gær og að sjálfsögðu mætti ég í veisluna. Ég átti víst að gera mér að góðu nestið sem mamma hafði meðferðis, hundabeinin. Ég reif þau auðvitað í mig, á methraða, því að mig langaði líka í veisluföngin
Í upphafi veislunnar kom Gulli, pabbi hluthafans, heim úr veiðiferð með stóran, spikfeitan lax. Ég elti Gulla og laxinn, gekk sko uppréttur alla leið að eldhúsvaskinum þar sem ég settist niður og beið spenntur eftir að fá að borða fiskinn. Sat svo bara og sat, horfði á Gulla skera fiskinn og snyrta, henda roði, innyflum, beinum og haus í ruslið, en ég fékk engin verðlaun. Ég var alveg forviða. Ég sem hafði sýnt hundakúnstir, gengið uppréttur, verið maður. Ósanngjarnt. Mig sem langaði bara til þess að fá að smakka á fisknum. Lyktin af honum var svo hriiiiiiiiiiikalega spennandi. Þá reyndi ég hjálparhelluhlutverkið, ætlaði að tæma ruslið fyrir Gulla svo að hann þyrfti ekki að skokka með pokann niður stigann og alla leið út að tunnunni. En ég mátti það ekki heldur. Ég hef sagt það áður, þetta er harður heimur
Þrátt fyrir fiskleysi í afmælinu, var veislan æði. Ég hitti fullt af fólki og svo fékk ég líka mannamat. Smakk af Pepperonipizzu og afmælisköku sem Ingibjörg bakaði, algjört æði (bæði kakan og Ingibjörg. Fallegu augun mín, kossar mínir og knús virkuðu alveg í þessari afmælisveislu
Ég færði hluthafanum, Pálma, merki í afmælisgjöf. Hann þvælist nefnilega út um allt alveg ómerktur. En nú er hægt að koma honum til skila, ef hann villist. Hann er kominn með þetta líka fína merki um hálsinn, sem á er letrað: Þessi maður er eign hundsins Lappa
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.