13.9.2008 | 23:16
Smalahundur
Jíhaaa!!!!! Þessi dagur var æðislegur Mamma fór með mig í sveitina, hún vildi sjá hvernig ég plummaði mig innan um kindur, ég er jú af smalahundakyni
Ég gat vart hamið hrifningu mína af sveitinni og jarmandi rollunum. Gekk uppréttur á móti Ævari móðurbróður mínum þegar hann kallaði á mig og bauð mér að koma með sér að smala. Og þá hófst sko vinnan Ég elti óþekktargemsana uppi með Ævari. Sat svo sem fastast og starði stíft á flökkukindurnar. Þær áttu ekki að þvælast aftur út fyrir girðinguna, undir vökulu auðnarráði mínu. Þessi smölun var svo skemmtileg að ég fór stundum framúr sjálfum mér. Ákefðin var svo mikil að það þurfti stundum að hasta á mig og skipa mér að hemja mig. Ég átti nefnilega ekki að sjá um það einn að koma kindunum í fjárhúsið. Það voru víst fleiri en ég að smala þarna í dag
Þegar kindurnar voru komnar í fjárhúsið, fórum við inn í íbúðarhúsið til þess að hvíla okkur. En hvað haldið þið!! Ævar, Ragga, Úlla, Pési, Hrafnhildur, Mamma og allir hinir fóru inn í íbúðina, en ég átti að bíða frammi í forstofunni. Hvílíkt óréttlæti. Ég, borgarhundurinn, var ekki sáttur og grét sáran í forstofunni. Þegar það hafði engin áhrif, gelti ég, í von um að mamma hlýddi og hleypti mér inn. Það gekk ekki heldur, það var bara hastað á mig í gegnum lokaðar dyrnar Þá fékk ég alveg nóg. Opnaði dyrnar sjálfur og rölti inn í eldhús. Ég get sko alveg bjargað mér Ég er líka svo klár. Formlega orðinn smalahundur, þrátt fyrir að hafa séð kindur í fyrsta skiptið í dag
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt 24.9.2008 kl. 18:38 | Facebook
Athugasemdir
Já Lappi minn - það var fróðlegt að sjá þig "kvarta" þegar nokkrar skjátur sluppu aftur upp á fjall. Næst færðu kannski að koma með alla leið, hver veit. Svo er nú skotveiðitímabilið fram undan - við ættum kannski að skella okkur á eitt og eitt skytterí saman, sjá hvernig þú fílar það.
kk - ævar
Ævar (IP-tala skráð) 16.9.2008 kl. 13:34
Svo kemur mynd af þér bráðum. Ég ætla að setja þær inn á tölvuna mína í kvöld og sendi svo myndina sem ég náði af þér og mömmu þinni í smölun. Þarf að setja þær hér inn :)
Kv. frá frænkunni
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 16.9.2008 kl. 13:52
Við erum bæði tvö ánægð með tilvonandi myndasendingu
En um veiðiferðir gegnir allt öðru máli. Mamma yrði að vera með óráði til þess að samþykkja að ég færi í veiðiferð. Hún vill ekki vita af mér í stórhættu á fjöllum, að eltast við einhverjar gæsir
kv. Lappi
LAPPI, 16.9.2008 kl. 19:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.