Karldýr

Ég, dekurdýr heimilisins, þoli ekki að vera afskiptur. Ég, karldýrið, á að vera númer eitt. Alltaf. Ég þoli ekki þegar mamma gleymir því eins og í kvöldAngry

Ingibjörg vinkona okkar mömmu kom í mat. Ég var nú bara ósköp stilltur á meðan að þær töluðu saman , elduðu matinn, töluðu svo enn meira saman og borðuðu matinn. Ég fékk líka smá verðlaun, spergilkál og sæta kartöflu. Mamma heldur nefnilega að ég sé grænmetisæta. En ég er bara alætaGrin

Þegar ég var búinn að spæna í mig kvöldskammtinn af þurrfóðri, Mamma og Ingibjörg voru sestar inn í stofu, taldi ég að nú væri minn tími kominn og athygli þeirra myndi beinast að mér. En það var nú öðru nær. Þær töluðu bara og hlógu, og augljóst var að hvorug þeirra ætlaði með mig út að ganga. Ég ákvað því að ná í dótið mitt, þær gætu þá bara leikið við mig úr því að það átti að sleppa hundaviðrunWoundering

Ég reyndi allt sem ég gat til þess að ná athygli þeirra en ekkert gekk. Ég þeyttist margar ferðir upp og niður stigann með dót í kjaftinum. Sótti sífellt eitthvað nýtt til þess að fá mömmu til þess að leika við mig. En mamma vildi bara tala við Ingibjörgu. Hún hafði engan áhuga á Voffa, dúkkunni, ýlunni, gula boltanum, Bíbí, eða veinandi kjúklingnum. Ingibjörg sagði mömmu að ég hegðaði mér eins og sannur karl, kæmi alltaf með nýtt dót til þess að reyna að fanga athyglina og skildi ekki; Nei við ætlum ekki að leikaShocking

Þá var ég nú orðinn pirraður og fór að naga Bíbí, gúmmífuglinn sem heyrist svo mikið í. Þegar ég bít í hann, heyrist skerandi tísthljóð, sem mér finnst skemmtilegt. Mamma og Ingibjörg voru ekki eins ánægðar í þessum hávaða. Mamma hefur svo sem heyrt þessi óhljóð áður, en Ingibjörg hélt fyrir eyrun og kvartaði undan heyrnarskerðingu. Svo mikil voru lætin. En þær tóku þó alla vega eftir mér. Athyglin beinist að mér, og umræðan snérist um migHalo Svo gleymdu þær mér aftur og fóru að tala um eitthvað annað. Þá fékk ég nóg af afskiptaleysinuDevil

Ég rölti í rólegheitum inn í eldhús, reis upp á afturlappirnar við eldhúsborðið og ákvað að fá mér eitthvað almennilegt að borða. En ég skil þetta bara ekki, ég var rétt byrjaður að gæða mér á kræsingunum þegar ég heyri mömmu kalla höstum rómi: "Hvað ertu að gera?" Blush

Mamma veit alltaf þegar ég geri eitthvað af mér. Ég drattaðist því inn í stofu með skottið á milli lappana. Ég tróð trýni mínu undir hendi mömmu, þá getur hún klórað mér á bak við eyrun um leið og ég sleiki á henni hina höndina og biðst afsökunar með fallegu brúnu augunum, ég kann jú ekki að tala. Um leið og mamma strýkur mér um kollinn, veit ég að mér er fyrirgefið. Hver getur líka staðist svona fallega afsökunarbeiðniHalo

Núna dæsir mamma yfir draslinu í stofunni. Dótið mitt liggur út um allt gólf og mamma þarf að taka til eftir mig. Ég get það nefnilega ekki sjálfur,, ég kann það ekki, ég er karldýrGrin

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er ennþá með suð í eyrunum Lappi minn, takk fyrir kvöldið! :-)

Ingibjörg (IP-tala skráð) 23.9.2008 kl. 11:23

2 Smámynd: LAPPI

Ekkert að þakka elsku Ingibjörg. Þú ert svo velkomin í hátíðniþjálfun hvenær sem þú vilt

Viltu kannski skrá þig á FÍH listann? 

LAPPI, 23.9.2008 kl. 21:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband