12.11.2008 | 19:18
Sífelld tjáning
Ragna vinkona okkar mömmu kvartaði sáran undan þögn minni. Hún veit að ég hef frá mörgu að segja og mælir með því að ég tjái mig hiklaust. Ég geri það stöðugt. Syng hástöfum, röfla ámátlega, brosi hringinn, allt eftir því hvernig liggur á mér.
Ég tóna hátt og innilega hvern sunnudag þegar kirkjuklukkurnar kveðja nágrennið til messu. Verandi næsti nágranni kirkjunnar, hef ég sitthvað til málanna að leggja og læt í mér heyra. Ef mér ofbýður alveg, hætti ég að syngja og leita skjóls hjá mömmu. Hún huggar litla sæta hugleysingjann. Já alla vega þegar hún er heima,, altsó þegar hún er ekki stödd í kirkjunni og ábyrg fyrir klukknaspilinu
Ég röflaði með látum í kreppuveislunni -kjötsúpuboðinu nýverið. Ég, sem lagði það á mig að standa eldhúsvaktina með mömmu og fylgjast mjög vel með því hvað ofan í pottinn fór, fékk ekki að vera númer eitt í veislunni. Mér var fylgt upp á stigapallinn og sagt að bíða þar þegar fyrstu gestina bar að garði. Mér var misboðið. Veinaði hástöfum á meðan gestirnir gæddu sér á matnum. Tók þó gleði mína á ný, þegar mamma sótti mig og leyfði mér háma í mig kjötsúpuna sem ég hafði eldað, með hennar hjálp
Ég brosti hringinn þegar ég fór í sumarbústað um daginn. Helgardvöl, fyrir utan borgarmörkin fylgir frelsi. Ég naut tilverunnar, alls óbundinn, hnusaði af hríslum og merkti mér staði þar sem mér þóknaðist. Hefðum við mamma verið ein á ferð, hefði björgunarsveitin verið kölluð út til leitar í hvert sinn sem ég hætti mér lengra en einn metra frá bústað. En skynsemisröddin, hárfagri vinur okkar mömmu, slóst sem betur fer með í för. Hann fékk mömmu til þess að slappa af og slaka á taumnum. Ég fékk því að njóta mín í taumlausri gleði
Brosti hringinn, helgina á enda
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:22 | Facebook
Athugasemdir
Finnst sumarbústaðaferðinni ekki gerð nægjanleg skil. Hver er t.d. þessi hárfagri vinur?
Ragna (IP-tala skráð) 17.11.2008 kl. 14:42
Þú getur nú alveg sagt okkur Rögnu meira um ferðina og hárfagra vininn....Við getum sett mömmu þína í einhver verkefni næst þegar þú færð að koma með henni til okkar og þú segir okkur frá á meðan :o)
Erla Birgis (IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 22:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.