Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
26.6.2009 | 18:35
Sumarið
er loksins komið segir mamma. Ég er ekkert yfir mig spenntur, mér er allt of heitt. Við höfum verið úti á palli í allan dag, mamma að pússa við og bera á hann, ég hef lítið hjálpað, hef bara verið að leita mér að skuggsælum stað til að liggja á
Ég, sem er mikið fyrir útivist, hef fengið nóg af hitanum úti í bili. Ég ætla að vera inni og liggja þar eins og klessa
24.6.2009 | 01:32
Ég get sýnt klærnar. . . .
. . . . bara ekki allar
Ég braut nefnilega kló á framloppu þegar ég fór út í fótbolta með Pálma hluthafa og Ingibjörgu. Það blæddi mikið úr sárinu og klóin dinglaði laflaus
Þegar mamma kom heim úr vinnunni í kvöld, var lausa klóin horfin. Mamma er alveg viss um að ég hafi étið hana
17.6.2009 | 20:33
Hæ hó jibbý jei og jibbý jei
Það er kominn Sautjándi Júní
Ég hef verið að æfa mig í rifjaáti og bæti tímann stöðugt. Mamma segir að ég hljómi eins og grjótmulningsvél við átið. Það tekur mig bara 9 sekúndur að hakka í mig svínarif Jíhaaaa !!
Ég fékk líka blöðru í dag, en það er bannað að borða hana.
Vinir og fjölskylda | Breytt 2.7.2009 kl. 18:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.6.2009 | 17:49
Einhver þarf að þrífa upp skítinn
Ég þurfti að þrífa gangstéttina við innganginn hjá ömmu. Köttur hafði verið að þvælast þar þegar ég var ekki á kattarvakt og skitið stéttina út. Ég þreif að sjálfsögðu upp eftir köttinn. Það er nefnilega bannað að skíta á stéttina hjá ömmu
Mamma varð frekar pirruð, dró mig úr átveislunni og sagði að ég ætti ekki að éta allt það sem á vegi mínum yrði
Ég skil ekki af hverju hún var að æsa sig, ég var bara að þrífa. Ég hafði enga hugmynd um það, að ég mætti ekki éta skít
25.5.2009 | 20:59
Lappi eða Lampi
Við mamma vorum að koma frá Tótu dýralækni. Hún þurfti ekkert að skoða mömmu núna, bara mig. Ég fékk nefnilega sár á munninn sem mig klæjaði mikið í. Og þegar mann (já eða hund) klæjar, þá er bara að klóra. En ég er með svo beittar klær að ég klóraði alltaf ofan af sárinu svo að það varð bara stærra og ljótara. Þess vegna fékk ég krem hjá Tótu til að bera á sárið. Ég er nokkuð ánægður með kremið, ég sleiki það af um leið og það er komið á. En til þess að ég gæti ekki klórað í sárið, var settur á mig skermur og það er ég ekki alveg sáttur við
20.5.2009 | 22:09
Ryksugan
,,,,,,,,,,,,,,, er skaðræðistól. Frá því að ég heyrði í henni óhljóðin í fyrsta skiptið, hef ég grátið yfir hávaðanum og reynt að slökkva á henni. Það hefur stundum tekist hjá mér, en þá er bara kveikt á henni samstundis aftur. Ég hef ráðist á hana, hoppað ofan á henni, bitið á barkann, urrað og reynt að gera út af við hana, en án árangurs
Ryksugur eru líka hættulegar fólki
Mamma ákvað að ryksuga stofuna áðan, á meðan að kvöldmaturinn mallaði í ofninum. Hún ryksugaði með tilheyrandi hávaða og látum og gleymdi rörunum sem standa upp úr ganggólfinu. Hún gekk beint á þau og meiddi sig á vinstra færi. Hún bölvaði rörunum í hljóði, haltraði inn í eldhús og ákvað að kíkja á matinn í ofninum. En ofninn er bilaður, það rýkur sjóðheit gufa út úr litlu opi. En af því að mömmu var svo illt í fætinum eftir röra-áreksturinn, þá gleymdi hún réttu vinnuaðferðunum við bilaða bakaofninn og tókst að brenna sig á vinstri hendi
Svo nú er mamma bæði hölt og með brunasár, bara af því að hún ákvað að ryksuga. Ég ítreka því enn og aftur. Ryksugur eru skaðræðistól
7.5.2009 | 18:35
Hundaát
Þótt ég sé átvagl og næstum alæta, hef ég þó ekki étið hund. Minn hundur er næstum alheill, ég er bara búinn að gera á hann nokkur göt og rífa innan úr honum smá tróð sem ég skil svo eftir á víð og dreif um íbúðina.
Hundur étur hund | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.5.2009 | 22:53
Frítíminn
Helgar og aðrir frídagar eru æði. Þá getum við verið úti að leika, spilað fótbolta, keyrt í Heiðmörkina eða Elliðaárdalinn. Farið í bíltúr og fengið ís, já eða farið í heimsóknir til ættingja og vina þar sem ómælt meðlæti er á boðstólum og ég get étið nánast það sem mig lystir. Ef ég mætti ráða, væri alltaf frí. En ég fæ bara svo sjaldan að ráða
Fríin okkar undanfarið hafa eiginlega ekki verið frí. Við erum nefnilega að breyta heima hjá okkur enn eina ferðina og ég er búin að fá nóg af framkvæmdagleðinni. Hér eru brotnir veggir, timbur rifið niður, málning skafin af tréverki og það pússað. Það er sem sagt allt á öðrum endanum
Ég er því ákaflega þakklátur fyrir hluthafann, Pálma. Líf mitt væri frekar fúlt þessa dagana væri ég einkahlutafélag Mömmu ehf. Pálmi sækir mig og fer með mig út að leika, baðar mig og snyrtir. Mamma og Haddi eru svo upptekin af endurbótum að ég væri sjálfsagt orðinn brúnn af ryki og sagi ef Pálmi hugsaði ekki svona vel um mig Þrátt fyrir frábæra umönnun Hluthafans, er ég orðinn dálítið pirraður. Hér heima er pússað og ryksugað í Sterio
Ég held að ég þurfi að komast í frí, ég hef fengi nóg af framkvæmdum heima. Kannski að Siggi, Gulli, Ævar, Maggi eða Beggý aumkvi sig yfir mig og bjóði mér heim til sín í endalaust át og dekur. Mér veitir ekki af því, ég þoli nefnilega ekki hávaðann í pússningavélum og ryksugum
7.4.2009 | 23:39
Og brúarsmíðin hefst hvenær??
Já einmitt
Um leið og afborgun húsnæðislána er við það að sliga launþega, og verðlag Krónunnar á lífsnauðsynjum eins og mat rýkur upp, líkt og um eyðslu í hreina vitleysu og munað væri að ræða, gerir þessi velferðarstjórn bara nákvæmlega ekki neitt af viti.
Ég og Lappi (sem nú er orðinn óþarfa lúxus, sé miðað við verð á hundafóðri) mættum marga laugardaga á Austurvöll, en til hvers??
Ekki til þess að helmingurinn af þáverandi ríkisstjórn sitji áfram.
Ekki til þess að Samfylkingin láti Ísland, en ekki vandamál þess, hverfa inni í ESB.
Ekki til þess að Fjármálaeftirlitið elti uppi blaðamenn sem segja þjóðinni sannleikann.
Ekki til þess að Vinstri-Græn veiti Fjárfestingarbönkum lán á fáránlega lágum vöxtum.
Ekki til þess að sjá eign í íbúðarhúsnæðinu fuðra upp í verðbólgubáli.
Ekki til þess að búa við stjórn sem telur mikilvægara að skipta sér af Goldfingergellum, en að koma þjóð sinni til bjargar.
Mér er nokk sama um það (nú taka femínistar andköf og ég fæ aldrei inngöngu í félagið), hvort léttklæddar meyjar hanga utan í súlum eður ei. Fáist einhver til þess og/eða hefur efni á því að horfa á þær í súlunuddi, er það alfarið vandamál viðkomandi.
Ég kýs að huga að vandamálum mínum og stórs hluta þjóðarinnar. Nokkur fúin sprek gagnast lítið í þrautargöngu heillar þjóðar yfir hyldýpisgjá. Í kjafti hvaða trölls lendum við á leiðinni yfir brúna? Verðbólgutröllinu sem át húsnæðið eða Vaxtatröllinu sem gleypti vinnuveitandann.
Hversu lengi þurfum við að bíða eftir að brúarsmíð núverandi stjórnar ljúki, verkið er ekki hafið enn
Þetta blogg er alfarið á ábyrgð mömmu, hún fékk síðuna mína lánaða, enda hef ég ekki hundsvit á pólitík kv. Lappi
Byggja þarf velferðarbrú | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.3.2009 | 19:39
Blogg fyrir Erlu
Erla kvartaði HÁSTÖFUM á Fésbókinni vegna dvínandi áhuga fólks (og vonandi líka dýra) á að blogga. Ég ákvað því að gera mitt til þess að róa þennan frábæra vinnufélaga minn og mömmu
Ég hef verið önnum kafinn undanfarnar vikur við lagfæringar heimavið. Ekki nóg með að mála þyrfti hér heilu hæðirnar, það varð að skipta líka um gólfefni. En Mamma er ekkert sérlega góður parketleggjari, því sáum við Ævar, móðurbróðir minn, alfarið um parketlögnina
Við Ævar höfum lokið framkvæmdum á efri hæðinni. Og svona lítur vinnu/sjónvarpsherbergið út, eftir lagfæringuna. Ég yrði ekkert hissa ef næsta verkefni yrði miðhæðin. Mamma er svo hriiiiiiiiiiiiiikalega ánægð með vinnuna uppi. Kraftlyftingagaurarnir og Haddi hjálpuðu líka, enda gat ég hvorki borið húsgögn á milli hæða, né komið nýja sjónvarpinu í gang
Elsku Erla Nú veistu hvað hefur á daga mína drifið, þá daga sem ég ekki mætti í vinnu. Þú hringir svo bara í mig, næst þegar þú þarfnast aðstoðar við að hræða kúnnana, ég er miklu betri í því en þú