26.7.2008 | 11:28
Vágestur
Óvelkominn gestur tróð sér inn til okkar mömmu í gær. Við komu hans bilaðist mamma, hljóp um veinandi og baðaði út höndunum með skelfingarsvip. Ég ákvað að taka þátt í hasarnum, hentist inn úr garðinum og hljóp um (alla) miðhæðina með mömmu. Ég vissi nú samt ekki af hverju við þeyttumst svona um eins og vitleysingar, en maður lætur sig nú ekki vanta í fjörið. Eftir smá stund settist ég niður og horfði á mömmu með "hvað er eiginlega að þér" svipnum. (Svipur sem ég nota mjög gjarnan þegar mamma vill fara í leiki sem mér leiðast). Ég hvorki fann né sá neitt athugavert, ja ef frá er talin hegðun mömmu
Allt í einu var hún komin með úðabrúsa í hendur og sprautaði allt í kring um sig. Þegar hún var farin að úða yfir mig líka, var mér nóg boðið og forðaði mér út í garð. Mér var ekki vært inni, mamma vopnuð, og stórhættuleg
En allan tímann sleppti hún ekki hendi af símanum sínum. Veinaði í hann öðru hvoru "geitungaárás", með beina útsendingu af ófriðarsvæðinu. Berglind móðursystir mín var á hinum enda línunnar og ráðlagði mömmu að leggja til atlögu, vopnuð Ajax rúðuúða. Hún sagði úðann þann nauðsynlega eign á heimilum þar sem enginn sjálfvirkur geitungabani er til staðar. En mamma fann bara húsgagnabónið, sem gagnaðist seint og illa gegn brjáluðum geitungi í árásarham
Þegar geitungurinn gafst loks upp, róaðist mamma og mér var óhætt að koma inn aftur. Þá var eldhúsgólfið orðið ófært sökum hálku og bónlyktin yfirþyrmandi. Ég herraði út í eitt þegar ég þefaði uppi hálkublettina og bragðið af þeim var ógeðslegt Ég lét mér því nægja að hnusa og hnerra, hnusa og hnerra, mamma var ófær um það. Hún sat inn í stofu klístruð og úfin, alveg búin á því. Enda ekki lítið mál að ráða niðurlögum heils geitungs
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:30 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.