23.8.2008 | 00:20
Atvinnulaus
Þrátt fyrir að við mamma séum einu meðlimir málningarhópsins, rak hún mig út úr tilvonandi sjónvarpsherbergi/vinnuherbergi með látum og lokaði að sér. Hvít loppuför á gólfi, voru víst ekki á listanum yfir framkvæmdir. Sár grátur og krafs í hurð hefur engu skilað, ég er ekki lengur meðlimur málningarliðsins. Mig vantar því sárlega eitthvað að gera núna. Ég er harðduglegur og tel ekki eftir mér að taka þátt í bæði framkvæmdum og húsverkum
Í fyrra málaði ég t.d. hluta íbúðarinnar fyrir mömmu, alveg aleinn. Settist í dökkrauða olíumálningu, þeyttist svo um og málaði með rófunni allt sem á vegi mínum varð. Húsgögn, veggi og gólfefni. Rófan var fagurbleik í marga daga á eftir, einn af uppáhaldslitum mömmu, ég gerði þetta bara fyrir hana
Ég er liðtækur í baðherbergisþrifum. Sleiki alltaf hreinsiefnið af baðkerinu fyrir mömmu, hún er þá laus við að þrífa það af aftur. Ég kann líka að kveikja og slökkva á ryksugunni, aðallega slekk ég þó á henni. Við erum þá laus við þann hryllingshávaða og getum sungið með þrif-tónlistinni
Svo ef einhvern vantar hjálpsaman hund þar til mamma gleymir hvítu loppuförunum á gólfinu, endilega hafið þá samband. Ég kann allt, ég get allt
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.