30.8.2008 | 22:37
Blóðugur boltaleikur
Ég skilaði ég mér heim úr boltanum áðan, blóðugur. Var í hundafótbolta með Pálma og Ingibjörgu þar sem ég sýndi snilldartakta eins og ævinlega. Flaug á eftir boltanum og kærði mig kollóttan um á hverju, eða hvernig ég lenti. Markmiðið er jú að grípa boltann, hlaupa með hann í kjaftinum til sóknarmanna, skila boltanum og fara aftur í vörn
Hamagangurinn í dag var þvílíkur að ég fékk svaka sár á hægri framloppu og það blæddi mikið. En ég var aldeilis ekki til í að hætta að spila, er eins og íþróttahetjurnar í sjónvarpinu, sem mamma var að tapa sér yfir um daginn, fórna mér alveg fyrir boltaíþróttina. Draghaltur og blóðugur, berst ég einbeittur og glaður í boltanum
En fótboltafélögum mínum var brugðið og ákváðu að koma mér heim til mömmu áður en skaðinn yrði meiri. Mamma tók pollróleg á móti mér, orðin vön meiðslum mínum. Ólíkt fyrsta skiptinu sem hún sá blóð á loppu og missti sig í móðursýkina. Annar bræðra minna sem veit mikið um blóð og svöðusár, á fólki reyndari, tókst að róa hana og fá hana ofan af því að kalla út dýralækninn og allt hans starfsfólk til þess að sinna mér að kvöldlagi
Ég hef blóðgast nokkrum sinnum síðan þá, svo mamma er orðin býsna sjóuð í hundaíþróttameiðslum. Hún fær að núorðið að hreinsa sárið, ég sé svo sjálfur um restina. Leggst niður og sleiki sárin þegar ég þarf á því að halda
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.