Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
6.12.2008 | 18:56
Kröfur
Við mamma erum víst mótmælendur. En það sem ég hef til málanna að leggja er eftirfarandi:
- Ég er dauðhræddur við alla þessa frekjuhunda sem mæta á svæðið með eigendum sínum. Ég læt mig samt hafa það og vil því fá meira hundanammi
- Þarna er alltaf fullt af fólki sem gaman væri að heilsa upp á. Ég vil því ganga laus og reyni að sleppa því að flaðra upp um alla
- Ég vildi gjarnan fá að skoða nánar, alla fuglana við Tjörnina. Ég lofa að hemja mig
26.11.2008 | 20:23
Hundshaus
Ég var að hjálpa mömmu að taka til í geymslunni, þessu mjög svo spennandi svæði, fullu af kössum og dóti. Ég þurfti að troða trýninu ofan í fullt af kössum, vegna þess að mamma var að leita að einhverju. Og ég, sérlegur aðstoða"maður" mömmu, ætlaði að hjálpa henni við leitina
Þegar mér fór að leiðast leitin, fór ég að kanna geymsluna og innihald hennar upp á eigin spýtur. Og hvað haldið þið! Ég fann þessi líka fínu dekk, þau lágu á gólfinu inni í horni geymslunnar fyrir hunda og manna fótum. Ég ákvað því að merkja dekkin. En ég hafði rétt lyft vinstri afturlöpp þegar mamma rak upp skaðræðisvein, hundskammaði mig og skipaði mér út úr geymslunni
Ég, sem pissa sífellt á bíldekk þegar við mamma erum úti að viðra okkur, varð virkilega fúll. Ég setti upp hundshaus og leit ekki við mömmu þegar ég fór út úr geymslunni
En sem betur fer fyrir hana, gleymdi ég fýlukastinu þegar ég var kominn hálfa leiðina upp stigann. Sneri við, og fór inn í geymslu til mömmu. Brosandi hringinn og með tunguna lafandi fór ég aftur að hjálpa mömmu. Tróð trýninu ofan í fullt af kössum þangað til að við fundum það sem við vorum að leita að; Aðventu/Jóla dóti
12.11.2008 | 19:18
Sífelld tjáning
Ragna vinkona okkar mömmu kvartaði sáran undan þögn minni. Hún veit að ég hef frá mörgu að segja og mælir með því að ég tjái mig hiklaust. Ég geri það stöðugt. Syng hástöfum, röfla ámátlega, brosi hringinn, allt eftir því hvernig liggur á mér.
Ég tóna hátt og innilega hvern sunnudag þegar kirkjuklukkurnar kveðja nágrennið til messu. Verandi næsti nágranni kirkjunnar, hef ég sitthvað til málanna að leggja og læt í mér heyra. Ef mér ofbýður alveg, hætti ég að syngja og leita skjóls hjá mömmu. Hún huggar litla sæta hugleysingjann. Já alla vega þegar hún er heima,, altsó þegar hún er ekki stödd í kirkjunni og ábyrg fyrir klukknaspilinu
Ég röflaði með látum í kreppuveislunni -kjötsúpuboðinu nýverið. Ég, sem lagði það á mig að standa eldhúsvaktina með mömmu og fylgjast mjög vel með því hvað ofan í pottinn fór, fékk ekki að vera númer eitt í veislunni. Mér var fylgt upp á stigapallinn og sagt að bíða þar þegar fyrstu gestina bar að garði. Mér var misboðið. Veinaði hástöfum á meðan gestirnir gæddu sér á matnum. Tók þó gleði mína á ný, þegar mamma sótti mig og leyfði mér háma í mig kjötsúpuna sem ég hafði eldað, með hennar hjálp
Ég brosti hringinn þegar ég fór í sumarbústað um daginn. Helgardvöl, fyrir utan borgarmörkin fylgir frelsi. Ég naut tilverunnar, alls óbundinn, hnusaði af hríslum og merkti mér staði þar sem mér þóknaðist. Hefðum við mamma verið ein á ferð, hefði björgunarsveitin verið kölluð út til leitar í hvert sinn sem ég hætti mér lengra en einn metra frá bústað. En skynsemisröddin, hárfagri vinur okkar mömmu, slóst sem betur fer með í för. Hann fékk mömmu til þess að slappa af og slaka á taumnum. Ég fékk því að njóta mín í taumlausri gleði
Brosti hringinn, helgina á enda
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.10.2008 | 18:57
Slagsmálahundur
Stór, feitur, loðinn köttur gerði sig heimakominn á pallinum mínum í dag. Hreiðraði um sig inni í horni á skjólveggnum, þannig að mamma tók ekkert eftir honum þegar ég sótti hana, og lét vita að ég þyrfti að komast út. Hún krækti taumnum í ólina og hleypti mér út. Þá varð fjandinn laus
Ég gelti strax hástöfum að kettinum til þess að losa okkur við kvikindið. En kattarófétið lallaðaði bara í rólegheitum út á enda skjólveggjarins og settist þar niður. Ég tapaði mér alveg. Urraði og gelti og hljóp um alveg snaróður, en ekkert gerðist. Kisan haggaðist ekki. Það var bara mamma sem tók við sér, skipaði mér að koma inn og hætta þessum látum, alveg tafarlaust. Núna strax. Á stundinni. En ég lét æsinginn í mömmu sem vind um eyru þjóta. Ég, þrjóskuhundurinn, ætlaði ekki að tapa þessum yfirráðasvæðis-slag. Ég lagði því til atlögu. Ætlaði að stökkva upp á vegginn og ná kettinum þar. En ég gleymdi að reikna með hálkunni á pallinum. Rann í tilhlaupinu, og slengdist utan í útiarininn og skjólvegginn
Þá missti mamma sig alveg og hélt að ég væri stórslasaður. Reyndi að draga mig nauðugan inn í hús, en ég gaf mig ekki. Hélt áfram að gelta, urra og atast eins og vitlaus væri, þrátt fyrir litlar undirtektir kattarins. Þá var mömmu alveg nóg boðið, hún var þess orðin fullviss að ég myndi skaðast illilega í þessum hamagang og ákvað að lokka mig inn í hús. Hún sótti mat, kom með hann í dyragættina og sagði blíðlega "Nei sko Lappi,,, sjáðu,, hvað á mamma"?
Slagsmálahundurinn vék fyrir Átvaglinu og ég hentist inn. Lifrapylsa og kartöflumús voru í boði Ég get bara slegist við þennan kött einhvern tímann seinna
16.10.2008 | 00:20
Ég mótmæli
Ég fékk mig fullsaddan af einveru. Mamma hefur verið mikið að heiman og lengi í einu. Þegar hún loks skilaði sér heim, sinnti hún bara mínum brýnustu nauðsynjum, altsó matnum og úrgangslosun. Enginn tími var fyrir leiki og viðrun, ja nema rétt svona til málamynda. Ég reyndi ítrekað að vekja athygli á mér. Náði í allt dótið mitt og bókstaflega henti því fang hennar. Það skilaði litlu, hún fór bara að taka til. Ég vældi og togaði í hana þegar hún hékk í símanum, en það breytti engu. Mamma röflaði bara yfir frekjunni í mér. Ég skildi bara ekkert í þessu ömurlega hlutskipti mínu
Hingað til hef ég verið nafli alheimsins, alla vega heima hjá mér og nánustu ættingjum. Ég greip því til örþrifaráða og hóf mótmæli. Þau voru þögul, en illþefjandi;
-Ég kúkaði á gólfið heima hjá Hluthafanum
-Ég pissaði inni í búrinu mínu.
-Ég kúkaði á pulluna mína niðri í stofu.
Ég kvaldist svo sem og kveinaði hástöfum eftir hverja mótmælaaðgerð mína, en lét mig samt hafa það. Neikvæð athygli var betri en engin
Og mótmæli mín skiluðu árangri. Mamma áttaði sig loks á því að ég væri ekki alveg sáttur. En í stað þess að panta tíma hjá hundasálfræðingi fyrir mig, fór mamma með mig út að hlaupa og leika. Og það var alveg nóg fyrir mig, ég bið nefnilega ekki um mikið. Smá athygli daglega, mat og viðrun, knús og kel. Sé þeim þörfum sinnt er ég sáttur og losa úrganginn úti, ekki inni í húsum
10.10.2008 | 00:00
Sláturtíð
Ég lenti í átveislu um helgina. Sigga frænka bauð mér í heimsókn ásamt hinum krökkunum í fjölskyldunni. Ég fékk fullt af kartöfluflögum og bland í poka, það var jú nammidagur og mamma ekki á svæðinu til þess að skipta sér af matarÆði mínu
En þegar kom að kvöldmatnum, hefði ég getað tapað mér. Ég fékk nefnilega sama mat og hinir. Slátur. Sum frændsystkina minna kunnu ekki að meta matinn, en ég er sko ekki matvandur. Ég gleypti í mig blóðmör, lifrarpylsu, kartöflumús og rófustöppu. Fékk mér reyndar vambir líka, en ég var einn um að hakka þær í mig
Fjölskyldunni fór að blöskra stanslaust átið og ég var dreginn nauðugur út úr eldhúsinu. En ég gat bara ekki hamið mig. Ég vissi af nokkrum vömbum sem lent höfðu í ruslafötunni
Þegar eldhúsið var orðið mannlaust, læddist ég inn aftur, veiddi vambirnar upp úr ruslafötunni og át þær með bestu lyst. Algjör óþarfi að láta slíkt góðgæti fara til spillis
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.9.2008 | 19:03
Hundahár
Það rann æði á mömmu. Hún elti mig uppi með kambinn í höndum, snemma í morgun. Það átti að kemba mér almennilega. Ég mátti gjöra svo vel að sitja, standa, snúa mér og leggjast á bakið. Þessi hárreyting tók laaaaaaaangan tíma og mér leiddist mjög mikið. Á milli þess að tala um hve duglegur ég væri, og roooooosalega fínn, röflaði mamma yfir hundahárum sem væru alls staðar Þau lægju m.a.s. í loftinu og laumuðu sér í matinn hennar. Meira röflið í þessari konu. Ég get þá bara étið matinn hennar líka, með hárum og öllu
En mamma lét ekki staðar numið eftir hársnyrtinguna.. Þá dró hún fram ryksuguna, hryllingstækið sem mér er meinilla við. Æddi með hana herbergja á milli og ryksugaði allt sem á vegi hennar varð. Ég var að flippa í þessum hávaða. Grét, rak upp vein, æddi um með stress slefið lekandi niður munnvikin og reyndi að slökkva á ryksugunni. En mér tókst það ekki, var svo stressaður í látunum að ég hitti ekki rétta takkann
Mér létti mikið, þegar mamma slökkti loks á ryksugunni. En ekki lengi. Hún bað mig um að koma til sín, ég hlýddi. Þá sagði hún mér að setjast niður, og ég hlýddi. Auðvitað, hélt að nú ætlaði mamma að kela við mig, ég hafði staðið mig svo vel í þrifunum En það hefði verið betra að hlýða ekki og hlaupa í burtu. Mamma kveikti nefnilega aftur á ryksugunni og fór að ryksuga mig Henni voru greinilega engin takmörk sett í þessari hundahárahreinsun sinni. Ég grét sáran á meðan feldurinn var ryksugaður. Sat samt kyrr, enda best að mótmæla mömmu ekki, þegar svona æði rennur á hana
Ég fékk auðvitað verðlaun eftir þessa skelfilegu meðferð. Skárra væri það nú. En mér er ekki rótt. Pyntingartækið er enn á stofugólfinu og hreingerningaræðisglampinn er enn í augum mömmu. Vantar einhvern ryksugu,, já eða hund??
23.9.2008 | 00:00
Karldýr
Ég, dekurdýr heimilisins, þoli ekki að vera afskiptur. Ég, karldýrið, á að vera númer eitt. Alltaf. Ég þoli ekki þegar mamma gleymir því eins og í kvöld
Ingibjörg vinkona okkar mömmu kom í mat. Ég var nú bara ósköp stilltur á meðan að þær töluðu saman , elduðu matinn, töluðu svo enn meira saman og borðuðu matinn. Ég fékk líka smá verðlaun, spergilkál og sæta kartöflu. Mamma heldur nefnilega að ég sé grænmetisæta. En ég er bara alæta
Þegar ég var búinn að spæna í mig kvöldskammtinn af þurrfóðri, Mamma og Ingibjörg voru sestar inn í stofu, taldi ég að nú væri minn tími kominn og athygli þeirra myndi beinast að mér. En það var nú öðru nær. Þær töluðu bara og hlógu, og augljóst var að hvorug þeirra ætlaði með mig út að ganga. Ég ákvað því að ná í dótið mitt, þær gætu þá bara leikið við mig úr því að það átti að sleppa hundaviðrun
Ég reyndi allt sem ég gat til þess að ná athygli þeirra en ekkert gekk. Ég þeyttist margar ferðir upp og niður stigann með dót í kjaftinum. Sótti sífellt eitthvað nýtt til þess að fá mömmu til þess að leika við mig. En mamma vildi bara tala við Ingibjörgu. Hún hafði engan áhuga á Voffa, dúkkunni, ýlunni, gula boltanum, Bíbí, eða veinandi kjúklingnum. Ingibjörg sagði mömmu að ég hegðaði mér eins og sannur karl, kæmi alltaf með nýtt dót til þess að reyna að fanga athyglina og skildi ekki; Nei við ætlum ekki að leika
Þá var ég nú orðinn pirraður og fór að naga Bíbí, gúmmífuglinn sem heyrist svo mikið í. Þegar ég bít í hann, heyrist skerandi tísthljóð, sem mér finnst skemmtilegt. Mamma og Ingibjörg voru ekki eins ánægðar í þessum hávaða. Mamma hefur svo sem heyrt þessi óhljóð áður, en Ingibjörg hélt fyrir eyrun og kvartaði undan heyrnarskerðingu. Svo mikil voru lætin. En þær tóku þó alla vega eftir mér. Athyglin beinist að mér, og umræðan snérist um mig Svo gleymdu þær mér aftur og fóru að tala um eitthvað annað. Þá fékk ég nóg af afskiptaleysinu
Ég rölti í rólegheitum inn í eldhús, reis upp á afturlappirnar við eldhúsborðið og ákvað að fá mér eitthvað almennilegt að borða. En ég skil þetta bara ekki, ég var rétt byrjaður að gæða mér á kræsingunum þegar ég heyri mömmu kalla höstum rómi: "Hvað ertu að gera?"
Mamma veit alltaf þegar ég geri eitthvað af mér. Ég drattaðist því inn í stofu með skottið á milli lappana. Ég tróð trýni mínu undir hendi mömmu, þá getur hún klórað mér á bak við eyrun um leið og ég sleiki á henni hina höndina og biðst afsökunar með fallegu brúnu augunum, ég kann jú ekki að tala. Um leið og mamma strýkur mér um kollinn, veit ég að mér er fyrirgefið. Hver getur líka staðist svona fallega afsökunarbeiðni
Núna dæsir mamma yfir draslinu í stofunni. Dótið mitt liggur út um allt gólf og mamma þarf að taka til eftir mig. Ég get það nefnilega ekki sjálfur,, ég kann það ekki, ég er karldýr
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 00:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.9.2008 | 00:34
Frændur og frænkur
Ég var í afmælisveislu hjá Díönu frænku minni, hún er víst orðin unglingur. Ég skildi ekki alveg þetta blaður í mömmu um veisluhöld og aldur. Sat bara og hallaði undir flatt, reyndi að halda jafnvægi og einbeita mér að því að hlusta á hana á meðan hún var að taka sig til fyrir veisluna. Áhugi minn var samt takmarkaður. Rófan á mér var athyglisverðari þangað til ég heyrði orðin Díana, Bergur og Mio
Þá fór ég að æða um gólf og reka á eftir mömmu. Yes!!! Við vorum að fara hitta Mio og systkini hans. Mio! Eyrun sperrast um leið og ég heyri nafn hans. Litli frábæri frændi minn, hinn hundurinn í fjölskyldunni. Ég er alltaf jafn spenntur yfir að hitta hann, þótt hann sé hrekkjóttur. Hann veit t.d. alveg að ég þoli ekki þegar hann hoppar upp á mig og sleikir á mér andlitið. Samt gerir hann það alltaf, aftur og aftur. Bara til þess að pirra mig. Þegar hann er skammaður, sest hann niður með englasvip á andlitinu, og bræðir alla með fallegum augum. Situr svo stilltur í smá stund, en um leið og ég róast og er farinn að dilla rófunni og brosa hringinn, mætir litli púkinn samstundis aftur. Með tunguna lafandi og hoppar upp á mig eins og vitleysingur
Þrátt fyrir þetta vesen í Mio, er ég alltaf yfir mig ánægður með að hitta hann. Okkur finnst svo gaman að fara saman út. Keppumst um að ná boltanum á hundafótboltaæfingum og þá sjaldan að ég vinn kapphlaupið og næ boltanum, hleypur litla krílið á eftir mér, alveg brjálaður, og reynir að taka af mér boltann
Viðrun með Mio er líka frábær. Við göngum kannski ekki langa vegalengd, en gangan tekur samt langan tíma. Ef annar okkar þefar upp blett sem nauðsynlegt er að pissa á, þarf hinn að pissa á sama blettinn líka. Við skemmtum okkur konunglega, það reynir hins vegar á þolrif þeirra sem fara út með okkur
Í dag voru það Rut og Kristín María sem voru svo góðar að fara út með okkur Mio. Mamma og Sigga Litla fóru með, svo að við myndum ekki draga þessar litlu frænkur okkar eitthvað út í buskann. Þetta er einmitt það frábæra við veislurnar. Við Mio þurfum ekki að væla og skæla og draga neinn nauðugan út úr húsi. Við erum svo æðislegir að litlu frænkurnar vilja ólmar fara með okkur út að ganga, hvernig sem viðrar, jafnvel þótt þær séu í sparifötum
16.9.2008 | 19:49
Hundaveður
Það eru víst takmörk á því, hvað ég get dregið hana mömmu út í. Ég röflaði og vældi um leið og hún kom heim, mig langaði út, hún þverneitaði. Sagði að það væri ekki hundi út sigandi
Til að sefa samviskubitið yfir viðrunarleysi gaf mamma mér bariecurif. Ég hætti samstundis að kvarta, þakkaði mömmu fyrir og kyssti hana, snéri mér svo að rifjaáti. NammiNammiNamm. Allur matur er æði, ég sætti mig við flest ef matur er í boði