Froða

Mömmu finnst gott að liggja og slaka á í freyðibaði. Mér finnst það sóun á froðu að liggja kyrr, gera ekkert nema hlusta á Mamma Mia við kertaljós. Froðan í baðinu er nefnilega svo rooooooooosalega bragðgóð Joyful

Fyrst reyni ég að sleikja froðuna ofan af baðvatninu á meðan rennur í baðkerið, en mamma rekur mig alltaf út af baðherberginu. Þegar mamma er komin ofan í vatnið er hún nánast hulin froðu, það rétt grillir í andlit og hár. Ég legg á mig mikla vinnu, ét froðu í gríð og erg, einhver verður að finna afganginn af mömmu. En hún verður alltaf jafn pirruð á þessari leit minni. Ég hef því verið að finna leið til þess að fá að éta froðuna, án þess að mamma reki mig út. Og nú hef ég fundið hana Whistling

Ég á nokkra litla bolta sem gaman er að leika með inni. Ég hef uppgötvað að ef ég næ í lítinn bolta, hendi honum ofan í baðkerið til mömmu, fleygir hún honum til mín aftur, röflandi um að hún kæri sig ekkert um útslefuð hundaleikföng í freyðibaðið Wink

En ég er sáttur, þrátt fyrir mótbárur mömmu. Ég fæ boltann nefnilega til baka, þakinn froðu. Þegar ég er svo búinn að sleikja froðuna af boltanum, hendi ég honum aftur ofan í baðið til mömmu. Fæ hann aftur til mín, þakinn froðu. Svo held ég bara áfram að vesenast svona þangað til að mamma gefst upp á afslöppuninni, hunskast upp úr baðinu og fer að sinna mér Wizard


Minn staður

Oft þegar mamma þarf að versla um helgar, dríf ég mig með henni. Hún veit alveg að minn staður í bílnum er skottið, það sem hún kaupir þarf að rúmast í aftursætinu. Hún gleymdi því alveg um síðustu helgi, keypti húsgögn, fullviss um að mublurnar kæmust vel fyrir í station-bílnum okkar. En auðvitað var ekkert pláss í skottinu fyrir húsgögn og heilan hund, það fer nú ekki svo lítið fyrir mér. Ég varð því að færa mig í framsætið, húsgögnin fengu mitt pláss Crying

Þegar ég var kominn í frammí, reyndi mamma fyrst að troða mér í bílbelti. Eftir endalaust vesen og vangaveltur komst hún að því að bílbeltin eru ekki gerð fyrir hunda. Því varð hún að keyra heim með mig óbundinn og skipaði mér að liggja á gólfinu. Ég hlýddi í nokkrar sekúndur en ákvað svo að láta fara vel um mig í framsætinu við hlið mömmu, enda sá ég ekkert markvert liggjandi á gólfinuAngry

Þegar ég var komin í sætið við hlið mömmu, sá ég margt nýtt og markvert sem ég þurfti að skoða. Gírstöngin var áhugaverð, ég þurfti að skipta mér af því í hvert sinn sem mamma skipti um gír. Ég tróð trýninu líka að stýrinu og hjálpaði mömmu að snúa því. Dinglandi lykill í kveikjulás var mjög spennandi, ég hamaðist lengi við að ná honum. Ég reyndi líka að fá mömmu til þess að klappa mér og klóra mér á bak við eyrun í bíltúrnum. Hún var ekkert sérstaklega ánægð með það:  "Lappi minn hættu þessu veseni, sérðu ekki að ég er upptekin við að keyra!!" Gasp 

Mömmu fannst ég ekki góður aðstoðarbílstjóri. Hún hefur því ákveðið að kaupa ekki fleiri húsgögn í bili. Eða þá að vera skynsöm og panta sendiferðabíl, þegar við tvö förum saman í húsgagnaverslanirGrin 


Mótmælakennsla

Mamma er hundveikWink 

Já eða hún er a.m.k. lasin,  og því gátum VIÐ ekki mætt á Austurvöll. Hún fékk engan til þess að mæta fyrir sig í mannfjöldann með mig í taumi.

Mömmu hundleiðast þessi veikindi strax á degi eitt. Því ætlar hún að nota vökutímann í eitthvað skynsamlegt. Og það þýðir að ég þarf að læra nýja hundakúnst. Nú á ég að spangóla í hvert sinn sem mamma segir orðið "Mótmæli"W00t

Þetta kennsla gengur ekki vel. Við erum búin að reyna þetta nokkrum sinnum í dag. Ég skil ekki þessa skipun:  "Lappi syngja" Ég hef legið flatur á gólfinu- dauður, gengið á afturfótum, farið í heljarstökk, velt mér, setið og horft á hana örvæntingarfullur á svip "Hvað er eiginlega að þér góða, hvað þarf ég eiginlega að gera til þess að fá þetta nammi sem þú ert með í höndunum"? 

Mamma hefur því ákveðið að kalla til aðstoðarþjálfara á morgun. Sökum heilsubrest, getur hún ekki hangið með mig úti í garði þegar kirkjuklukkurnar hringja, hún hangir varla uppi innandyra. Ég spangóla gjarnan með kirkjuklukkum, og því heldur mamma að kjöraðstæður verði til kennslu þegar hringt verður inn í seinni messu sunnudagsins. Hún vill því kalla saman klapplið sem hælir mér í hástert í hvert sinn sem ég læt í mér heyra og verðlaunar mig fyrir vikið. "Duglegur strákur, Lappi syngja"Crying

My brother, Where art thou? Mamma er með óráðiSidewaysSideways


Valdabarátta

Við mamma vorum að koma inn úr göngu, fórum í Elliðaárdalinn. Það er svo hrikalega langt síðan að við gengum hringinn okkar, að ég var bókstaflega að missa mig í merkingum. Ég kreisti nokkra dropa úr blöðrunni svo oft á leiðinni, að gangan tók helmingi lengri tíma en vanalega að sögn mömmu. Ekki tók ég eftir því, ég hafði svo mikið að gera í merkingum. Svo tætti ég upp rennblautt grasið eftir hverja merkingu og þeytti því yfir mömmu og/eða út á gangstétt. Gönguleiðin er því kyrfilega merkt núna fyrir þá sem ekki rata Wink

 

Samstundis og við komum heim, og mamma hafði klætt sig úr pollagallanum, kvartaði hún yfir því að það væri vond lykt af hundvotum feldi. Því ákvað hún að draga mig í sturtu. Og hún þurfti bókstaflega að draga mig niður stigann. Ég spyrnti við á öllum fjórum, en mamma gaf sig ekki. Hún lét eins og bandbrjáluð keppniskona í reiptogi, togaði af öllum lífs og sálar kröftum og hafði sitt fram á endanum. Hún náði að draga mig inn í sturtuna Angry

En sigurvíman rann fljótt af henni. Hún gleymdi nefnilega að að festa tauminn við blöndunartækin, leit af mér til þess að stilla hitann á vatninu, þá greip ég tækifærið og strauk. Ég hljóp með látum upp í herbergið mitt, hentist upp í gluggakistu og lagðist þar flatur. Þóttist svo vera mjög upptekinn við að horfa út um gluggann þegar mamma kom upp og röflaði yfir strokinu. Ég lét pirringinn ekkert á mig fá, ég var svo ánægður með sjálfan mig. Engin sturta. Ég hafði unnið Wizard


Ábyrgðarlaust blogg

,,, Ekki lengurGrin

Mamma gengst við ábyrgðinni sem fylgir hundabloggi og gerðist því ábyrgðarmaður minn. Enda ábyrg konaWhistling

Af mér er það hins vegar að frétta að ég er að ganga af göflunum yfir þessum sífelldu sprengingum úti og ljósadýrðinni. Ég þarf ekkert róandi, er sko ekkert hræddur. En mamma segir að ég þurfi að róa mig smá. Ég má ekki elta flugeldana.  Ég má ekki troða troða mér alls staðar að þar sem verið er að kveikja í einhverju, og fylgjast með hvernig gangi Wink

Góða skemmtun á morgun Rut, Ethan, Kristín María, Díana, Bergur, Eyþór, Viktor Tumi, Ásdís Brynja, Stefán Emil, Hluthafinn og Ingibjörg,  og farið varlega. Ég ætla að skemmta mér, mamma sér um að ég fari varlegaWizardWizard

Takk fyrir samfylgdina á líðandi ári

jolahundur

Gleðilegt árHeart

 


Jólakortagerð

Ég kann vel við að vera miðpunktur athyglinnar, en það er óþarfi að troða á mig fylgihlutum, ég er alveg nógu flotturBlush 

Ég læt ekki nokkurn mann sjá mig svona 

eg get ekki latid sja mig svona

Bestu jólakveðjur Kissing

 


Jólaundirbúningur Hunds

Við mamma höfum verið önnum kafin í allan dag. Við þurftum víst að undirbúa jólin. Ég beið sem sagt stilltur í bílnum á meðan mamma vesenaðist eitthvað. Ég var ágætlega sáttur við þvælinginn, enda vissi ég að ég fengi verðlaun í hvert sinn sem mamma kom í bílinn aftur. Þetta kallaði mamma jólaundirbúning Wink

Þegar við komum loks heim aftur, hélt þessi jólaundirbúningur áfram. Mamma ákvað nefnilega að setja jólatréð á sinn stað og skreyta það, og auðvitað hjálpaði ég. Ég þurfti að þefa af hverri grein á gervitrénu okkar og hjálpa mömmu að koma því fyrir í jólatrésfætinum. Mamma bað mig reyndar um að hætta aðstoðinni, hún sagði að tréð okkar væri nógu skakkt, það liti út fyrir að vera á einhverju. Ég skildi hana ekki og hélt áfram að hjálpa Halo

Svo varð ég að skoða hvert skraut sem hengt var á jólatréð. Ég hnusaði af sumu, annað þurfti ég að skoða betur. Jólatréstoppurinn í plasthylkinu var mjög áhugaverður. Ég ætlaði að hjálpa mömmu við að ná honum úr hylkinu, en hann þoldi ekki hundahnjask og brotnaði þegar ég beit í plastið Blush

Núna stendur jólatréð okkar fallega skreytt í horninu á stofunni. Það er reyndar dálítið skakkt ennþá, við verðum víst að fá hjálp við að rétta það af. Svo vantar líka topp á tréð, en við mamma reddum því á morgun. Förum aftur í jólaundirbúning og ég ætla að bíða í bílnum eftir verðlaunum, á meðan mamma kaupir nýja jólatréstopp Whistling


Færðin/Færnin

Ólei, ólei, ólei óleieieieieieieieieiei! Grin

Mamma lét sig hafa það að fara með mig í fótbolta, þrátt fyrir snjóalag á vellinum okkar. Mamma var óhress með færðina, og kenndi hálku um þegar löngu sendingarnar inn á völlinn klikkuðu. Oftar en ekki lenti ég bara ringlaður í boltaleit áðanShocking

Ég skil þetta ekkiW00t 

Þegar ég spila fótbolta við annað fólk, get ég hlaupið í þá átt sem það miðar. Mömmu boltar flugu í allar aðrar áttir en miðið sem var tekið. Henni tókst m.a.s. að sparka boltanum aftur fyrir sig og setja bílinn okkar í stórhættu á æfingu dagsins. Við þurfum því að finna okkur annað bílastæði. A.m.k. þangað til að fótboltafærðin, já eða bara fótboltafærnin, skánarWhistling


Kröfur

Við mamma erum víst mótmælendur. En það sem ég hef til málanna að leggja er eftirfarandi:

- Ég er dauðhræddur við alla þessa frekjuhunda sem mæta á svæðið með eigendum sínum. Ég læt mig samt hafa það og vil því fá meira hundanammiHalo

- Þarna er alltaf fullt af fólki sem gaman væri að heilsa upp á. Ég vil því ganga laus og reyni að sleppa því að flaðra upp um allaWink

- Ég vildi gjarnan fá að skoða nánar, alla fuglana við Tjörnina. Ég lofa að hemja migWhistling


Hundshaus

Ég var að hjálpa mömmu að taka til í geymslunni, þessu mjög svo spennandi svæði, fullu af kössum og dóti. Ég þurfti að troða trýninu ofan í fullt af kössum, vegna þess að mamma var að leita að einhverju. Og ég, sérlegur aðstoða"maður" mömmu, ætlaði að hjálpa henni við leitinaHalo

Þegar mér fór að leiðast leitin, fór ég að kanna geymsluna og innihald hennar upp á eigin spýtur. Og hvað haldið þið! Ég fann þessi líka fínu dekk, þau lágu á gólfinu inni í horni geymslunnar fyrir hunda og manna fótum. Ég ákvað því að merkja dekkin. En ég hafði rétt lyft vinstri afturlöpp þegar mamma rak upp skaðræðisvein, hundskammaði mig og skipaði mér út úr geymslunniW00t

Ég, sem pissa sífellt á bíldekk þegar við mamma erum úti að viðra okkur, varð virkilega fúll. Ég setti upp hundshaus og leit ekki við mömmu þegar ég fór út úr geymslunniCrying 

En sem betur fer fyrir hana, gleymdi ég fýlukastinu þegar ég var kominn hálfa leiðina upp stigann.  Sneri við, og fór inn í geymslu til mömmu. Brosandi hringinn og með tunguna lafandi fór ég aftur að hjálpa mömmu. Tróð trýninu ofan í fullt af kössum þangað til að við fundum það sem við vorum að leita að;  Aðventu/Jóla dótiWizard


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband