Undirstöður

Við mamma vorum að setja saman nýja borðið úti í garði. Við þurftum að skrúfa fæturna undir borðið og það var hrikalega mikið mál. Fyrst lá ég ofan á borðplötunni á meðan að mamma byrjaði að festa fæturna undir það. Hún skipaði mér að færa mig af því að ég væri fyrir. Fyrir!! Ég var nú bara að fylgjast með að allt væri rétt og vel gert, eftirlit með framkvæmdum er nauðsynlegt á þessu heimili. Svo kom (auðvitað) í ljós að við þurftum að losa borðfætur og byrja verkið aftur. Það hafði víst gleymst að nota eitthvað af skrúfudótinu sem fylgdi borðinu og því riðaði rosalega flotta nýja borðið okkar eins og veik rollaSick    En við mamma létum það ekki á okkur á fá, losuðum fætur og festum þá aftur. Mamma sá um að skrúfa og ég var áfram í eftirlitinuPolice

Sko! Það eru fjórir fætur undir borðinu og því var eftirlitsferlið býsna flókið. Trýni mitt þurfti að fylgja hverri skrúfu og hverjum snúningi skrúfjárns. Ég fór því hring, eftir hring, eftir hring, eftir hring, í norður, suður, austur og vestur. En jafnvægisskyn mitt er gott og því þjáðist ég hvorki af svima né þurfti ég að kasta upp. En eitthvað hefur eftirlitsvinnan truflað mömmu, því þegar hún hélt að verkinu væri lokið, ofboðslega ánægð með árangurinn, þá var búið að skrúfa mig fastan við einn borðfótinnShocking

Málið er nefnilega það að ég er alltaf hafður í ól úti í garði. Mömmu er meinilla við að ég fari á flakk eða losi úrgang í næstu görðum. Því er ég alltaf bundinn við heimahagann. Og eftirlitsvinnu minni fylgir jú þessi langi taumur. Einhvern veginn hafði einhver flækja myndast í þessu hringsóli mínu og mömmu tekist að skrúfa ólina fasta við borðið. En við gáfumst ekki upp, mamma losaði skrúfurnar og flækjuna og ég er laus við að þvælast um allt með heilt garðborð um hálsinnSmile  

Borðið komið á sinn stað, já eða næstum. Nú talar mamma um að hún þurfi að breyta einhverju í garðinum svo borðið njóti sín beturWink  Það stendur samt á fjórum fótum og er ekki neitt valt lengur. Við mamma æði og getum alltHappy

En bara svo þið vitið, þið ykkar sem eigið eftir að skrúfa fæturna undir nýja, flotta garðborðið ykkar, þá eigum við mamma varahluti. Það urðu afgangs hjá okkur þrjár skinnur, ja bara svona ef ske kynni að ykkur vantaðiGrin


Myndarlegur

Loksins er búið að koma inn mynd af mérHappy

Það gekk eitthvað illa hjá henni mömmu að minnka af mér jólamyndina.  Ætli litarefnið frá Evu sé farið að ná inn fyrir rótina Errm


Flækingskettir

Í könnunarleiðöngrum mínum um hverfið, flækjast kettir oft fyrir mér. Það er alveg sama hvað mamma segir: "Sjáðu, þetta er bara lítil sæt kisa" " Hættu þessum látum og láttu kisu í friði"   Ég vil ekki vita af köttum nálægt mér og verð hrikalega pirraður þegar við hittum þá. Í heimi hunda eru kettir til þess að elta, já eða alla vega hræða Angry

Venjulega dugir að stoppa, horfa illilega á kisuna, láta heyra pínu í mér og bingó! Hún lætur sig hverfa. Eftir stend ég hrikalega ánægður með mig og horfi hróðugur á mömmu " Ertu ekki ánægð með mig, kisan er farin"Happy

En það eru til undantekningar. Um daginn varð á vegi mínum kisa sem lét ekki segjast. Tilburðir mínir til þess að stökkva henni á flótta voru til einskis. Ég stoppaði. Hún gaf sig ekki. Þá horfði ég illilega á hana, en það dugði ekki til. Þá ákvað ég að sýna tennurnar og urra smá, það gekk ekki heldur. "Litla sæta kisan" sat bara sem fastast á miðjum gangvegi mínum og mömmu, setti upp kryppu og gerði sig líklega til þess að hvæsa.

URRRRRRRRR!! Þvílík hortugheitDevil  Slíkt framferði er ekki hundum bjóðandi. Ég setti því upp minn ljótasta svip og urraði svo hressilega að mömmu dauðbrá. Stökk svo að kettinum, með mömmu í eftirdragiNinja

Kisan lét sig auðvitað hverfa, með látum. Mamma var hins vegar var ekkert ánægð með að vera dregin í þennan slag og hóf enn eina ræðuna um "litlar sætar kisur".  Hún ætti ekki að kvarta. Konan sem segist kjósa að líta á björtu hliðarnar. Getur hún þá ekki bara verið ánægð með að ég togi hana stundum pínulítið áfram. Hún er þá a.m.k. með einn fitt vöðva á líkamanum. Togvöðvann á hægri upphandlegg, sem ég sé um að þjálfaHalo


ADL

Á hverjum degi vakna ég og vek mömmu, misjafnlega snemmaSmile

Á hverjum degi bíð ég með slefið lekandi úr kjaftinum eftir MAT, alltaf jafn mikið slefBlush

Á hverjum degi fer ég út í garð og losa úrgang, ótrúlegt hvað getur komið frá ekki stærri búkW00t

Á hverjum degi vakta ég ferðir nágrannakatta, þeir eru óþolandi og voga sér stundum í minn garðPolice

Á hverjum degi verð ég að viðra mig, annars fer ég bara í fýlu og læt sambýlisfólkið finna fyrir þvíAngry

Á hverjum degi þarf ég að bíða, og bíða og bíða. Eftir mömmu. Biðin hjá mér hefst þegar mamma fer í viðrunargallann. Þá fer ég að ganga um gólf, ýta á eftir mömmu og væla líkt og ég hafi aldrei áður komist út fyrir hússins dyr. Vælið og vesenið getur stundum pirrað mömmu, en það pirrar mig ALLTAF jafn mikið hversu oft hún þarf að huga að maskara, lyklum, síma, veski og glossi áður en við förum út. Ætli hún geri sér grein fyrir hversu langur tími fer í þennan útiveruundirbúning hennar. Get svo svarið það, ég gæti gengið af göflunum, meira vesenið á þessari konu. Svo leyfir hún sér stundum að röfla yfir óþreyjuvælinu í mérShocking


Hundasund

Mamma ákvað að breyta til og fara með mig í Öskjuhlíðina/Nauthólsvík í dag. Kannski af því að ég hamaðist eins og vitleysingur á sláttuorfinu, svo það var ekki vinnandi vegur að klára brekkusláttinn með mig til aðstoðar. Þessi Öskjuhlíðargönguferð er ein af betri hugmyndum sem slegið hafa niður í kollinn á henni í langan tímaWink

Þegar við vorum komin út í Nauthólsvík, ákvað mamma að fara út af göngustígnum og rölta með mig niður að fjöru. Leyfa mér að leika mér svolítið utan alfaraleiðar. Ég hljóp eins og vitleysingur út um allt, og hnusaði af af hverju grjóti, hverju sandkorni sem á vegi mínum varð. Hrikalega spennandi í nokkrar mínútur, en þá sá ég fugla, mjög spennandi leikföng á sundi í Víkinni. Ég skellti mér því upp á grasbarð rétt ofan við fjöruborðið, tók svo flugið og stakk mér til sunds á eftir fuglunum. Mamma flippaðiW00tW00t

Hún stóð veinandi í fjörunni, dauðhrædd um að ég myndi drukkna. Þessi læti í henni voru svo sem skiljanleg, mér hefur aldrei dottið til hugar að koma nálægt vatni eftir að ég flutti til hennar. Hún vissi ekki að ég er syndur að eðlisfari. Henni varð bara hugsað til endalausra láta og vesens þegar á að baða mig. Ég fæst ekki til þess að fara í bað, nema í vernduðu umhverfi, altsó ég læt mig hafa það að fara í Hundabað Löðurs ef næg verðlaun eru í boði fyrir dugnaðinnHalo

Auðvitað varð þetta Nauthólsvíkursund mitt frekar stutt. Það var ekki hægt að njóta stundarinnar með mömmu hálfgrátandi á bakkanum, skipandi mér að koma upp úr sjónum STRAX. Ég hunskaðist því í land aftur. Ekkert skömmustulegur, bara þvílíkt ánægður með sjálfan mig, brosandi út að eyrumWhistlingWhistling

Mamma er ekkert sérstaklega ánægð með mig núna þegar við erum komin heim. Kvartar um að það sé vond lykt af mér. Vond lykt!! Ég sem var að koma úr baðiWoundering  Svo er feldurinn ekki lengur svartur og hvítur, hann er víst svartur og móbrúnn af drullu segir hún og talar um að við þurfum að fara í Löður. Hundabað!Shocking Hvað er hún að röfla um það núna. Ég baðaði mig einn og óstuddur áðan úti í NauthólsvíkGrin


Útivera

JíhaaaaaaaHappy  Veðrið undanfarna daga hefur verið æðislegt, því verið mjög auðvelt að draga mömmu út úr húsi.  Ja, ég ætti kannski að segja að erfitt sé að ná henni í hús.  Við viðrum okkur oft á dag, göngur, hundafótbolti og heimsóknir.  Svo má víst ekki gleyma því sem mér finnst ekkert sértaklega spennandi eða skemmtilegt að gera, en það er að liggja í sólbaði úti í garði. Ég held að ég taki ekki annan lit en þann sem ég hef. En ég læt mig svo sem hafa það, þegar ekkert betra býðstFootinMouth

Vonandi verður ekki lát á veðurblíðunni. Ég fékk nefnilega alveg nóg af kuldakaflanum áður en voraði. Þá var stundum erfitt að fá mömmu með sér í Elliðarádalinn í frosti og roki. Af hverju veit ég ekki. Kannski hún hafi ekki þolað fjólubláa litinn í andlitinu, já eða þá að málningin, sem tekur svo hrikalega langan tíma að setja á sig áður en farið er út, hafi fokið af henni Wink 

 


VAKNA!!

Ég má ekki vakna klukkan sex, ekki klukkan fimm og þaðan af síður klukkan fjögur eins og ég gerði í morgun. Mamma er óhress með þennan fótaferðatíma og vitnar sífellt í einhverja klukku sem ég veit ekkert um. Svo heldur hún því fram að það sé ennþá nótt, um leið og hún vitnar í klukkuna sem sífellt breytist. Woundering

Nótt!! GetLostGetLost

Það var þá. Það er bjart úti og þá er kominn dagur og það þýðir sko ekkert að plata mig og reka mig inn í búr. ÞAÐ ER KOMINN DAGUR, FRAMÚR MEÐ ÞIG MAMMA, sólin er m.a.s. mætt á svæðið. Þá á ekki að sóa tímanum inni í búri eða upp í rúmi. Nei .Þá á maður að drífa sig að borða og svo beint út að leika. Af einhverjum ástæðum er mamma ekki sammála, skil það bara alls ekki.Undecided


Móðursjúkur

Mamma skildi mig eftir í heila viku hjá bræðrum mínum. Ég fékk svo sem nóg að borða, tæplega mánaðarskammt á einni viku. Mjög gott,,,, "ég er ennþá svangur" svipurinn dugði vel. Hreyfing mín og útivera var í sögulegu lágmarki, enda Pálmi frændi minn og fótboltafélagi ekki heima til að aðstoða nema helming tímans. Ekki alveg nógu gott,,, því mér finnst svo hriiiiiiiiiiiikalega gaman að vera úti, sérstaklega í fótbolta. Ég hafði það því bara hálfskíttWink

Nú er mamma loksins komin heim aftur og ég er að passa upp á að hún yfirgefi mig ekki aftur á næstunni. Ég sef því á gólfinu inni hjá henni, hún kemst ekki fram úr án þess að stíga á mig, ég fer sko ekki inn í búr. WinkSleeping

Ég passa upp á að hún komist heilu á höldnu út af baðherberginu aftur, lifi af sturtuferðir, fari sér ekki að voða við að fara út með ruslið, geti sett uppþvottavélina af stað og komi tauinu í þvottavélina, svo fátt eitt sé talið. Ég er límdur við mömmu, ég er að passa hana Police

Ég hálf ligg ofan á henni í sólbaðinu úti á palli og hún kvartar bara sárlega yfir hundahárunum sem klessast við hana. Skil ekki þetta röfl, hún getur burstað mín hár af sér, veit ekki betur en að hún þurfi að fjarlægja sín eigin hár af með vaxi. Ég hef líka verið önnum kafinn við að fjarlægja sólarvörnina af mömmu. Held mig þó bara við andlitið, annars verður hún alveg brjáluð. Halo

Ég hef setið við hlið hennar í sólbaðinu og troðið trýninu að andlitinu. Ég hef laumast meðfram sólbekknum að andliti hennar. Ég hef skriðið undir sólbekkinn, mjög hljóðlega og plantað trýninu við andlitið. Hún fattar samt alltaf alveg um leið að húðhreinsun sé hafin. Ég skil þetta ekki, augun eru lokuð og hún virðist sofa. Verð greinilega að pæla meira í þessari andlitshreinsunaraðferð minniBandit


Klár

Ég er svo klár, ég er svo klár, ég er svo hrikalega klárCool Bara að láta ykkur vita af því, hafi það óvart farið framhjá ykkur. Ég kann að opna dyrnar á skrifstofu mömmu. Stend upp við dyrnar, ýti húninum niður með framloppu, og bingó. Ég er frjáls. Wizard

Ég ætti nú að eiga hrós skilið fyrir þessa stórkostlegu uppgötvun mína. En nei, það er bara röflað yfir veseninu á mér. Ég á nefnilega að kyrr inni á skrifstofunni. Núna þarf ég því að velja milli tveggja kosta. Annað hvort að sýna snilli mína og svala forvitninni um lífið fyrir utan skrifstofudyrnar, eða þá að vera stilltur og fá verðlaun fyrir vikið. Matarást mín hefur yfirleitt vinninginn InLove


Vinnuhundur

Ég er alveg hryllilega busy þessa dagana.Sideways

Ég þarf að bíða í búrinu á meðan mamma vinnur og passa húsið. 

Ég þarf stundum að mæta með mömmu í vinnuna og hjálpa henni í pappírsflóðinu

Ég ligg oft dauðlúinn eftir vinnuna í forstofunni heima hjá ömmu og passa útidyrnar á meðan mamma, amma og aðrir ættingjar ganga frá einhverju smávægilegu fyrir innan forstofudyr.

Ég er líka að drukkna í verkefnum heimafyrir, eftir að vinnudegi lýkur. Við mamma erum nefnilega að skafa hundgamla málningu af stigahandriðinu. Mamma sér um hitablásarann og sköfuna, ég hleyp upp og niður stigann með voffa (gæludýrið mitt) í kjaftinum. Hnusa öðru hvoru af hitablásaranum og hleyp svo vælandi í burtu.

Mér hefur því verið úthlutað nýju verkefni við handriðahreinsun. Ég á að liggja á púðanum mínum við garðdyrnar og japla á nammi. Ég er sko að "hjálpa mömmu", sjálfsagt að passa að það ryðjist ekki fleiri inn til þess að hjálpa við viðhald hússins Grin


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband